13/08/2015
Mikil vinna hefur farið í endurbætur á Urriðavelli í sumar. Nú þegar hefur verið tyrft yfir sár við veg sem liggur meðfram heimreiðinni á Urriðavelli og alla leið meðfram 1. braut og í gegnum 2. braut. Þessi sár urðu eftir efnisflutninga úr Urriðahollti í vetur.
Endurbætur á tjörnum við 2. og 5. flöt eru jafnframt í fullum gangi. Hafist var handa við lagfæringar á tjörninni sem liggur við sjötta teig og að 2. flöt. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er unnið af krafti við að koma nýju undirlagi í tjörnina. Í byrjun næstu viku verður settur nýr dúkur í tjörnina sem á að koma í veg fyrir að vatn úr tjörninni leki í nærliggjandi jarðveg.
Þegar vinna við tjörnina á 2. braut er lokið verður hafist handa við að endurbætur á tjörninni við 5. flöt. Stefnt er að því að vatn verði komið í tjarnirnar áður en um langt líður og vonandi á næstu vikum.
Umhverfi við veginn er orðið mjög snyrtilegt. Tryggvi Ölver vallarstjóri og Þorvaldur Þorsteinsson framkvæmdastjóri fara yfir stöðuna við nýja efnisgeymslu nærri 6. flöt.
Notifications