• 1. Object
  • 2. Object

-1.9° - NA 4.3 m/s

585 0050

Book Tee Times

Ingi Þór endurkjörinn formaður GO

– Stefnt að stækkun Urriðavallar

Aðalfundur Golfklúbbsins Odds fór fram í gærkvöldi, 8. desember í golfskálanum við Urriðavöll. Ingi Þór Hermannsson var endurkjörinn formaður GO en hann tók við formennsku í klúbbnum árið 2009. Stjórn GO var endurkjörin til áframhaldandi setu á aðalfundinum.

Ingi Þór þakkaði félögum traustið og sagði mjög spennandi tíma framundan í starfi Golfklúbbsins Odds. Minntist hann þar sérstaklega á að Evrópumót kvennalandsliða fer fram á Urriðavelli á næsta ári sem er mikill heiður fyrir Golfklúbbinn Odd og golfhreyfinguna á Íslandi. Það verður eitt stærsta verkefni sem Golfklúbburinn Oddur hefur tekið að sér.

Þörf á stækkun golfvalla á höfuðborgarsvæðinu
Jafnframt greindi Ingi Þór félagsmönnum frá framvindu mála varðandi stækkun Urriðavallar í 27 holur en nú er unnið að aðalskipulagi Garðabæjar fyrir tímabilið 2016-2030. Landeigendur hafa sýnt stækkun Urriðavallar mikinn áhuga og hafa unnið að því að koma sjónarmiðum varðandi stækkunina á framfæri við skipulagsyfirvöld í Garðabæ. Í því skyni hafa þeir kostað gerð deiliskipulags fyrirhugaðs svæðis og lagt fram sem sýn landeigenda á framtíðarnotkun svæðisins sem rúmist innan Aðalskipulags Garðabæjar.

Fram kom í máli Inga Þórs á aðalfundinum í gær að golfklúbbar á höfuðborgarsvæðinu væru nú orðnir yfirfullir og getur það reynst erfitt að fá rástíma á vinsælustu tímunum. Þörfin fyrir stækkun golfvalla á höfuðborgarsvæðinu sé því sannarlega til staðar sé horft 5 – 10 ár fram í tímann.

Vonir standa til að bæjaryfirvöld og hagsmunaaðilar taki vel í hugmyndir landeigenda og Golfklúbbsins Odds varðandi stækkun. Stefnt er að félagsfundi snemma á nýju ári þar sem stækkunarhugmyndir landeigenda verða kynntar ítarlega fyrir félagsmönnum.

Lítilsháttar tap
Rekstrartekjur Golfklúbbsins Odds á nýliðnu starfsári numu tæpum 160 milljónum og rekstrargjöld 161,6 milljónum.  Áætlun gerði ráð fyrir 202 þúsund króna hagnaði.  Stærsta frávik frá áætlun er hækkun launakostnaðar vegna nýgerðra kjarasamninga í vor sem nam tæpum 5% umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlun.  Fram kom í máli Þorvaldar Þorsteinssonar framkvæmdastjóra að stefnt væri að því að ná tilbaka tapi þessa starfsárs á því næsta og er gert ráð fyrir að skila 1,7 milljón króna rekstrarafgangi á næsta rekstrarári.

Samþykkt var hækkun árgjalda fyrir komandi starfsár.

Félagsgjöld GO 2016 verða með eftirfarandi hætti:
Einstaklingar 20-67 ára | 103.000 kr.-
Einstaklingar 67 ára og eldri | 75.000 kr.-
Börn og unglingar að 20 ára aldri |  31.000 kr.-
– Tvö systkini | 42.000
– Þrjú systkini | 53.000
– Fjögur systkini | 64.000
Inngöngugjald | 15.000

Félögum fjölgar
Félagar í Golfklúbbnum Oddi eru alls 1.202. Þar af eru 488 konur eða 41% félaga klúbbsins. Það er hæsta hlutfall kvenna í golfklúbbi á landinu en landsmeðaltal kvenna er rétt tæp 30%. 105 félagar eru með Ljúflingsaðild sem nýtur aukina vinsælda. 154 nýir félagar komu inn í klúbbinn á árinu 2015. Félögum fjölgaði um 62 á árinu 2015. Bókaðir hringir á Urriðavelli voru 23.506 síðastliðið sumar en voru 22.718 árið þar á undan. Það er tæp 4% fjölgun hringja á milli ára.

Stjorn2016

Stjórn Golfklúbbsins Odds 2016: Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GO, Svavar Geir Svavarsson, Einar Geir Jónsson, Þorvaldur Ólafsson. Neðri röð f.v. Guðmundína Ragnarsdóttir, Ingi Þór Hermannsson og Ágústa Grétarsdóttir.

adalfundur1-2015

Frá aðalfundi GO 2015 í golfskálanum í Urriðavatnsdölum.

adalfundur2015

Skjöl:
Ársskýrsla GO 2015
Ársreikningur GO 2014-2015

< Fleiri fréttir