22/12/2016
Golfklúbburinn Oddur stóð fyrir Evrópumóti kvennalandsliða á Urriðavelli í sumar. Til að undirstrika um hversu sterkt mót var að ræða á alþjóðlegum mælikvarða þá sést það líklega best á því að í gær tryggðu fjórir kylfingar, sem tóku þátt í Evrópumótinu á Urriðavelli, sér keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna.
Puk Lyng Thomsen frá Danmörku, Frida Spang Gustafsson frá Svíþjóð, Luna Sabron frá Spáni og Lucrezia Rosso Colombotto frá Ítalíu tryggðu sér í gær fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni ásamt Valdísi Þóru Jónsdóttur úr Golfklúbbnum Leyni. Valdís varð í öðru sæti í mótinu sem er einstakur árangur og er kominn í deild þeirra bestu í Evrópu.
Fyrr í desember tryggðu þær Maria Parra frá Spáni og Bronte Law Englandi sér keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni. Maria Parra lék á lægsta skor einstaklinga á Urriðavelli í sumar eða fjórum höggum undir pari og tryggði sér fullan keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni. Bronte Law leiddi lið Englands til sigurs í mótinu eftir sigur á Spáni í úrslitaleik. Hún hlaut takmarkaðan keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni á næstu leiktíð en Law hefur verið einn besti áhugakvenkylfingur í heimi undanfarin ár.
Við hjá Golfklúbbnum Oddi samgleðjumst auðvitað með öllum þessum frábæru kylfingum og ekki síst með Ólafíu Þórunni og Valdísi Þóru. Þetta sýnir um margt hversu golfhreyfingin á Íslandi er öflug. Við óskum kylfingum um allt land til hamingju með einstakt golfár í íslenskri golfsögu.
Hér að neðan má sjá myndir af þessum sex kylfingum sem teknar voru á Urriðavelli í sumar.