11/08/2021
Golfklúbburinn Oddur átti glæsilega fulltrúa á fyrsta (Íslands) móti golfklúbba í aldursflokknum 65+ sem fram fór í nafni LEK (landssamtaka eldri kylfinga) á flottum velli Golfklúbbsins í Öndverðarnesi dagana 10.-11. ágúst.
Keppnislið GO var skipað eftirfarandi leikmönnum.
Ægir Vopni Ármannsson, Ragnar Gíslason, Þór Geirsson, Vignir Sigurðsson, Guðmundur Ragnarsson, Eggert Ísfeld Rannveigarson, Jóhannes Rúnar Magnússon og Ingi Kristinn Magnússon
Alls mættu 10 keppnislið til leiks frá neðangreindum golfklúbbum og dregið var í tvo riðla.
Í A- riðli léku GKG, GK, GR, GS og lið GM og í B- riðli GO, GV, GÖ, GF og Nesklúbburinn
Leikformið í mótinu er holukeppni, leiknar eru 9 holur, spilaður er einn fjórmenningsleikur og fjórir tvímenningsleikir þar sem keppt er við hin liðin í riðlinum og efsta sætið í riðlinum keppir svo til úrslita við efsta lið hins riðilsins og einnig leika liðin í öðru sæti riðlana um 3. sætið í mótinu.
GO hóf leik í mótinu á móti liði GV og höfðu okkar menn sigur í þeim leik 3 / 2. Næsti leikur okkar manna var gegn liði heimamanna í GÖ og endaði sá leikur með stórmeistarajafntefli 2,5 vinningur á lið. Leikur við Nesklúbbinn var svo næst á dagskrá og höfðu okkar menn sigur þar 3,5 – 1,5 vinningi. Í lokaleik riðilsins var svo leikið við lið Flúða og þar höfðu okkar menn sigur 4 – 1
Eftir að vinningar liðanna höfðu verið lagðir saman fór það svo að okkar menn sem töpuðu ekki viðureign söfnuðu saman vinningum en lið GÖ hafði aðeins betur og náði sér í 15,5 vinninga og náði því efsta sætinu og okkar kappar léku því um verðlaun (3. sætið) við lið GKG
Þar fór svo að lokum að lið GO hafði betur í leiknum um þriðja sætið 3 / 2 gegn GKG og við óskum okkar mönnum innilega til hamingju með frábæran árangur, ekkert tap og þriðja sætið staðreynd.