• 1. Object
  • 2. Object

4.1° - SSV 6.8 m/s

585 0050

Book Tee Times

Kynning á frambjóðendum til stjórnar GO 2023

Kjörnefnd Golfklúbbsins Odds auglýsti eftir framboðum til stjórnar GO fyrir aðalfund klúbbsins sem haldinn verður þriðjudaginn 6. desember næstkomandi. Skv. auglýsingu verður kosið til eftirfarandi embætta skv. lögum.
– formanns til eins árs
– tveggja stjórnarmanna til tveggja ára
– varamanns til eins árs
( kosið verður um tvo varamenn til eins árs ef lagabreyting sem lögð verður fyrir aðalfund verður samþykkt )

Hér fyrir neðan eru kynningarbréf þeirra sem bjóða sig fram til embætta.

Til embættis formanns barst eitt framboð frá Kára Sölmundarsyni starfandi formanni og telst því sjálfkjörið í það embætti á komandi fundi.

Kári H. Sölmundarson
Ég býð mig fram til formanns Golfklúbbsins Odds. Ég hef verið formaður klúbbsins frá september 2019 og hef hug á að leiða hann áfram næsta árið.  Ég settist í stjórn hans árið 2016 en hef verið félagi í klúbbnum frá 2008.  Á þessu tímabili hefur Oddur og völlur hans, Urriðavöllur, náð einstökum árangri sem allra fremsti golfklúbbur landsins þegar kemur að gæðum upplifunar.  Framundan er að festa það í sessi með framkvæmdum á golfvellinum og fjárfestingum í búnaði til að viðhalda gæðum og ná enn frekari árangri.  Það hefur verið frábær reynsla að starfa fyrir klúbbinn undanfarin ár og þakka ég fyrir þann tíma en enn eru verkefni sem mig langar til að fá að ljúka við. Stóra verkefnið á næsta ári verður að tryggja að framkvæmdir við stækkun vallarins fari af stað og að á framkvæmdatíma verði ekki röskun á iðkun félagsmanna. 

Til stjórnarmanna til tveggja ára, bárust sex framboð sem kynnt eru í þeirri röð sem þau bárust.

Berglind Rut Hilmarsdóttir

Ég hef spilað golf í fjöldamörg ár og verið meðlimur í besta klúbbi landsins síðan 2015. Frá þeim tíma hef ég æft með æfingahópi meistaraflokks GO kvenna og fengið að keppa fyrir hönd klúbbsins í Íslandsmóti golfklúbba. Ég brenn fyrir golf, sem er mitt helsta áhugamál í seinni tíð og það var ástæða þess að ég gaf kost á mér í stjórn Golfklúbbsins Odds árið 2017.

Í stjórn golfklúbbsins hef ég tekið að mér ýmis störf, sem almennur stjórnarmaður, ritari og féhirðir. Ég er stolt af þeim góða árangri sem við í stjórninni höfum náð á undanförnum árum. Helst ber að nefna að við höfum með framkvæmdastjóra náð að stuðla að góðum rekstri klúbbsins. Góður rekstur er grundvöllur alls annars sem gert er, hvort sem er viðhald vallar eða frekari uppbygging og þjónusta við meðlimina. Fyrir utan hefðbundnar skyldur stjórnarmanna, er eitt meginhlutverk okkar að gæta hagsmuna félagsmanna. Það er okkar hlutverk að stuðla að metnaðarfullri starfsemi á öllum sviðum í rekstri golfklúbbsins, en á sama tíma að byggja upp og viðhalda góðum félagsanda. Það er mikilvægt að í stjórn séu samstíga og metnaðarfullir aðilar, sem eru tilbúnir til að gefa sinn tíma til að gera klúbbinn okkar enn betri fyrir okkur öll.

Ég hef ákveðið að gefa kosta á mér til áframhaldandi setu í stjórn klúbbsins, enda ærin verkefni framundan hjá okkur. Þar á meðal verkefni í tengslum við 30 ára afmæli klúbbsins og Íslandsmótið í höggleik 2023. Það fyllir mig stolti að bjóða bestu kylfingum landsins að keppa á vellinum okkar, þeim besta og fallegasta á landinu. Stækkun Urriðavallar er svo langtímaverkefni sem stjórn þarf að sinna af fullum krafti, enda mikil eftirspurn eftir fleiri rástímum á vellinum okkar. Ljóst er að það útheimtir mjög mikla vinnu að koma stækkuninni í framkvæmd og þurfa allir að leggjast á eitt ef hún á að komast af hugmyndastigi.  Það eru því mörg spennandi en jafnframt krefjandi verkefni framundan. Ég álít að ég geti lagt mitt af mörkum við þau öll.

Ég tel mikilvægt að stjórn golfklúbbsins endurspegli sem best samsetningu meðlima klúbbsins, þar sé fólk á sem breiðustu aldursbili með fjölbreyttan bakgrunn og í svipuðum kynjahlutföllum o.s.frv. Um leið og ég þakka fyrir stuðning til stjórnarsetu undanfarin ár, óska ég eftir áframhaldandi stuðningi til setu í stjórn Golfklúbbsins Odds.


Jón Sigurður Garðarsson

Ég hef stundað golfíþróttina frá 1999, í upphafi aðalega sem hliðarsport þar sem að mikill tími fór hjá mér í að þjálfa á skíðum yfir vetrartímann, ég var við skíðaþjálfun í 28 ár.  Þegar því lauk eða um 2010 og þá fór ég að gefa golfinu meiri tíma ásamt því að eiginkonan mín hóf að spila af meiri alvöru.  Ég var í GR, ásamt eiginkonunni til að byrja með en eitt sumarið var okkur hjónum boðið á Golfmót Borgunar sem haldið var á Oddi – skemmst er frá því að segja að eftir mót þá var mér sagt að ég mætti alveg vera áfram í GR en konan var staðráðin í að ganga í flottasta golfklúbb landsins Odd sem einnig skartaði/skartar fallegasta golfvelli landsins, sem að auki er mjög kvenvænn.  Þar sem að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á félagsstörfum leið ekki á löngu að ég sóttist eftir því að koma í stjórn Golfklúbbsins Odds, þangað kom ég eftir að stjórnar setu minni í Knattspyrnudeild Breiðabliks lauk, störfum mínum innan Breiðabliks er þó ekki alveg lokið þar sem að ég hef verið Blótsstjóri Kópavogsblótsins frá upphafi þess stóra viðburðar sem haldið hefur verið tvisvar en 20. Janúar 2023 fer það fram að nýju.  Í sumar var ég fulltrúi úr stjórn Odds sem sat í framkvæmdarnefnd EM stúlkna sem fram fór á Urriðavelli og lærði ég mikið af setu minni í nefndinni og hlakka til að fá að taka þátt í framkvæmd á Íslandsmóti í golfi sem fram fer á Urriðavelli, á 30. ára afmælisári klúbbsins næstkomandi sumar, gert er ráð fyrir að mótið fari fram 10. – 13. ágúst og við félagsmenn megum vera stolt af því að fá að taka á móti bestu kylfingum landsins í kvenna- og karla flokkum.  Ýmis önnur verkefni hef ég tekið að mér innan stjórnar og í almennum störfum fyrir klúbbinn.  Ég er rekstrarmaður og hef starfað við stjórnun í sama fyrirtæki frá árinu 1985 sem ég svo eignaðist meirihluta í árið 2009 og hef rekið það síðan þá.  Sá árangur sem núverandi stjórn, ásamt þeim grunni sem fyrrverandi stjórnir hafa unnið að og hafa náð í rekstri og umgjörð vallar og umhverfis, gerir mig stoltan og ánægðan sem félagsmann í Oddi.  Rekstur íþróttafélags er ekki auðveldur nema síður sé, samheldnin í stjórn ásamt störfum framkvæmdastjóra og starfsfólks er mikilvægur þáttur í starfi íþróttafélags að þeirri stærð sem Oddur er og þar tel ég mig vera mikilvægan hlekk í stórum og jákvæðum hóp stjórnarmanna og starfsfólks.  Það er mikilvægt að vökva ræturnar og huga vel að undirstöðum því að það skapar grundvöll til að viðhalda starfinu og stuðla að frekari uppbyggingu.   Verkefnin eru mörg þó að það stærsta sé Íslandsmót í golfi 2023 ásamt stækkun Urriðavallar sem er verkefni næstu ára og mun mikill tími og margar hendur þurfa til að klára slíkt verkefni. Það að bjóða sig fram til stjórnarsetu í hvaða sjálfboðaliða starfi sem er kallar á mikla  vinnu og mikla ábyrgð. Að vinna góð verk í sjálfboðastarfi veitir mér mikla ánægju og ég veit ef ég verð kosinn áfram sem fulltrúi félagsmanna í stjórn Golfklúbbsins Odds mun ég halda áfram þeirri góðu vinnu sem ég hef skilað af mér ásamt öllu því góða fólki sem eru með mér í stjórn.  Ég vil nota tækifærið hér og þakka félagsmönnum stuðninginn undanfarin ár og vona að krafta minna sé óskað áfram.


Giovanna Steinvör
Giovanna Steinvör heiti ég og gef kost á mér í stjórn Golfklúbbsins Odds. Ég er hag- og tölvufræðingur að mennt og starfa sem ráðgjafi í viðskiptagreind hjá hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtækinu Expectus. Þar á undan var ég sölugreinandi hjá Icelandair. Ég hef tekið þátt í mörgum fjölbreyttum verkefnum á borði við áætlanagerð og gagnavinnslu svo eitthvað sé nefnt. Síðastliðið ár hef ég verið að æfa í æfingahópnum hjá Rögga og Phil og aðstoðaði liðið okkar í sveitakeppninni. Að auki er ég einnig liðsstjóri hjá meistaraflokk kvk Stjörnunni í handbolta. Ég er mjög spennt fyrir komandi árum hjá Oddi og langar að vera partur af þeirri vegferð. Ég hef margt til brunns að bera, er skipulögð, vinnusöm og bý yfir ástríðu fyrir sportinu. Ég tel mig því vera góðan kost í stjórn félagsins og geta komið með ferskan blæ og nýja sýn inn í frábæran klúbb.

Bestu kveðjur, Giovanna


Joost van Erven

Ég undirritaður Joost van Erven langar að gefa kost á mér í stjórn Golfklúbbs Odds.

Ég er hollenskur að uppruna, fæddur í Hollandi árið1961 en flutti til Íslands árið 1985 og hef búið hér síðan. Ég er menntaður sjúkraþjálfari og starfa á eigin sjúkraþjálfarastöð í Kópavogi. Ég hef reynslu að stjórnarstörfum, hef setið í stjórn Félags sjúkraþjálfara í 5 ár þar af  4 ár sem varaformaður en einnig í stjórnum ýmissa góðgerða- og áhugamannafélaga. Ég hef verið virkur í íþróttafélögum í Garðabæ og víðar. Hef starfað fyrir handbolta- og fótboltadeild, bæði í Stjörnunni, KFG og Fylki alls í 22 ár.

Ég hef sérstakan áhuga á að taka þátt í uppbyggingu á unglingastarfi í golfklúbbnum sem og að taka þátt í stækkun á golfvellinum okkar.

Kær kveðja, Joost Van Erven


Ágúst Valgeirsson

Ég býð mig fram í stjórnarsetu í Golfklúbbnum okkar Oddi. Ég hef mikla stjórnunarreynslu og ítarlega þekkingu á rekstri, stefnumótun, breytingarstjórnun, fjármálum og stafrænni umbreytingu sem ég tel að myndi nýtast klúbbnum okkar vel á komandi árum, en framundan eru mörg krefjandi verkefni. Og ég er á þeim stað að hafa tíma og ráðrúm til að geta sinnt stjórnarsetu vel.

Ég byrjaði að spila golf sem strákur og þá á Nesinu þar sem ég  og bróðir minn spiluðum saman með hálft sett. Eftir þó nokkra pásu þá byrjaði ég aftur í golfinu með konu minni og þá á Oddinum.

Áhugi minn á golfi er mjög mikill, þótt forgjöfin sé ekki lág 😊 en það stendur til bóta og nýlega lauk ég dómaranámskeiði hjá GSÍ. Mínar áherslur eru að tryggja að hinn almenni félagsmaður í Oddi finni sig vel á vellinum okkar og að þjónusta og umgjörð sé að endurspegla þarfir okkar félagsmanna sem má meðal annars gera með því að leita áleits þeirra ofar á þeim málum sem stjórnin er að fjalla um og gera okkar stjórnsýslu opnari og gagnsærri.

Ég er rekstrar- og hagverkfræðingur að mennt, fæddur og uppalinn í Reykjavík. Er kvæntur og á 3 börn og 6 barnabörn. Á eftir golfinu eru það hjólaferðir og fjallgöngur sem ég stunda.

Hef starfað sem stjórnandi í einkareknum fyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum, unnið sem ráðgjafi fyrir innlend og erlend fyrirtæki ( Advania, 365 miðlar, Kögun, Háskólinn í Reykjavík, Menntamálaráðuneyti og fl. ) og verið Oddfellowi í mörg ár og sinnt þar ýmsum trúnaðarstörfum.


Árni Traustason

Í framhaldi af framboði mínu  í stjórn Golfklúbbsins langar mig að kynna mig örlítið fyrir ykkur fáu sem þekkja mig ekki.

Ég heiti Árni Traustason og er 38 ára Reykvíkingur að upplagi en undanfarin 8 ár hef ég búið í Kópavogi ásamt konu og  bornum okkar fjórum.

Þið hugsið eflaust 4 börn! Nær hann að spila eitthvað golf ?   Já ótrúlegt en satt þá hefur það tekist með þolinmóðri konu og skipulagningu 😊

Ég hef verið í Golfklúbbnum frá árinu 2008 og hef ekki hugsað mér að fara neitt, því um er að ræða fallegasta og besta golfvöll að mínu mati amk. Eina sem völlurinn á eftir að gefa mér er hole in one.  Það kemur vonandi síðar…

Ástæða mín fyrir framboði eru einföld.  Mig langar að gefa tilbaka allt sem klúbburinn og völlurinn hefur gert fyrir mig öll þessi ár. Setja mark mitt á það sem er framundan og ekki skemmir að þetta er 30 starfsárið sem gerir þetta extra special. 

Ég tel mig geta hjálpað klúbbnum að ná settum markmiðum og halda áfram að þróast framávið eins og sannur meistaravöllur.

Kær Kveðja, Árni Trausta.


Til varamanns til eins árs, bárust tvö framboð sem kynnt eru í þeirri röð sem þau bárust.

Ef lagabreyting um að kjósa skuli tvo varamenn verður samþykkt teljast bæði framboð samþykkt.

Guðrún Símonardóttir

Kæri félagi í Oddi

Ég býð mig hér með fram í hlutverk varamanns í stjórn golfklúbbsins Odds.

Ég hef reynslu af ýmsum félagsstörfum og starfaði meðal annars um tíma í barna- og unglingaráði handknattleiksdeildar Víkings og var gjaldkeri fimleikadeildar KR á síðustu öld (reyndar aðeins hluta hennar) 🙂

Ég hef verið meðlimur í Oddi sl 3 ár og fylgst með því frábæra starfi sem þar er unnið, meðal annars þegar ég vann sem sjálfboðaliði á Evrópumótinu síðastliðið sumar.

Ég hef áhuga á því að koma aftur að félagsstörfum og langar að leggja Oddi lið. Ásamt reynslu af vinnu við félagsstörf hef ég víðtæka reynslu úr atvinnulífinu, er alveg hreint ágæt í golfi og á þar mikið inni, er áhugasöm og drífandi. 

Ég óska hér með eftir þínu atkvæði.

Með kveðju, Guðrún Símonardóttir


Páll Pálsson

Páll Pálsson heiti ég, ég er giftur Lilju Sigmarsdóttur og eigum við 3 börn og ég á eitt fyrir og eitt barnabarn. 

Ég er menntaður kerfisstjóri og vinn hjá OK. Ég hef verið í golfi í 27 ár. Ég er mikill golf áhugamaður ásamt því að kíkja í stangveiði.  Ég hef verið í GO í 5 ár og líkar það rosalega vel. Ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í starfi GO.

Kjörnefnd GO

< Fleiri fréttir