• 1. Object
  • 2. Object

4.1° - SSV 6.8 m/s

585 0050

Book Tee Times

Tillaga stjórnar um breytingar á lögum Golfklúbbsins Odds

Síðast urðu breytingar á lögum á aðalfundi 2016 og er nú verið að breyta lögunum í takt við nýrri tíma og vinnulag.  Stjórnin leggur til eftirfarandi breytingar;

Í 1.grein er fellt út pósthólf klúbbsins enda er nú póstur borinn út til okkar sem ekki var áður.

Í 5. grein er felldur út texti um gjalddaga enda kemur það aftur fram í 6.grein.

Í 6. grein er skerpt á innheimtu árgjalda og heimild veitt til að dreifa greiðslum án kostnaðar fyrir klúbbinn.

Í 8 grein er eingöngu greinir felldur út- að öðru leyti engin breyting á ákvæðinu.

Í 10. grein er lögð til stærsta breytingin á lögum félagsins frá því sem nú er.  Bætt er við öðrum varamanni svo þeir verða tveir.  Rétt til setu á stjórnarfundum hafa þá fimm stjórnarmenn auk tveggja varamanna.  Einnig er lagt til að úrsögn úr klúbbnum sé tilkynnt til skrifstofu félagsins í stað ritara enda er framkvæmdin í raun þannig.

Í 16. grein er tekin út auglýsing um aðalfund í dagblaði enda næst betur til félagsmanna með öðrum hætti.

1. grein

Er nú:

Félagið heitir Golfklúbburinn Oddur, (GO).  Heimili þess og varnarþing er í Urriðavatnsdölum, 210 Garðabæ, póstfang er pósthólf 216, 212 Garðabær. Félagið er aðili að Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK), Golfsambandi Íslands (GSÍ) og Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ). 

Tillaga:

Félagið heitir Golfklúbburinn Oddur, (GO).  Heimili þess og varnarþing er í Urriðavatnsdölum, 210 Garðabæ. Félagið er aðili að Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK), Golfsambandi Íslands (GSÍ) og Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ). 

5. grein

Er nú:

Árgjöld og inntökugjöld skulu ákveðin á aðalfundi til eins árs í senn. Aðalfundur ákveður árgjöld eftir ákveðnum reglum.  Gjalddagi er 1. mars ár hvert, en eindagi 1. apríl.

Tillaga:

Árgjöld og inntökugjöld skulu ákveðin á aðalfundi til eins árs í senn.

6. grein

Er nú:

Árgjald skal greitt eða frá greiðslu þess gengið fyrir 1. mars ár hvert. Hafi árgjald ekki verið greitt fyrir 1. apríl er félagsstjórn heimilt að fella viðkomandi af félagaskrá og taka inn félaga af biðskrá í hans stað. Stjórnin getur ákveðið álag á félagsgjöld sé ekki staðið í skilum með þau. Úrsögn úr félaginu er bundin við áramót, enda berist hún skriflega til ritara fyrir lok desembermánaðar.

Tillaga:

Innheimta árgjalda hefst eftir aðalfund. Árgjald skal greitt eða frá greiðslu þess gengið fyrir 1. mars ár hvert. Hafi árgjald ekki verið greitt fyrir 1. apríl er félagsstjórn heimilt að fella viðkomandi af félagaskrá og taka inn félaga af biðskrá í hans stað. Stjórn félagsins er heimilt að bjóða félagsmönnum upp á greiðsludreifingu árgjalda með greiðslukortum eða öðrum viðurkenndum greiðsluaðferðum. Skilyrði er að félagið beri ekki kostnað af slíkum samningum. Úrsögn úr félaginu er bundin við áramót, enda berist hún  skrifstofu félagsins fyrir lok desembermánaðar.

8. grein

Síðasta setning greinarinnar er:

Brottvísun úr félaginu skal þó ætíð háð samþykki stjórnarinnar.

Tillaga:

Brottvísun úr félaginu skal þó ætíð háð samþykki stjórnar.

10. grein

Er nú:

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn, aðra stjórnarmenn til tveggja ára í senn, þannig að tveir þeirra eru kosnir annað hvert ár. Komi til þess að stjórnarmaður hætti í stjórn á fyrra starfsári er heimilt að kjósa stjórnarmann til eins ár svo að tryggt verði að tveir stjórnarmenn verði kosnir á hverjum aðalfundi í samræmi við ákvæði 2. ml. i.f.*

Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félagsins og stjórnar þegar við á auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila.
Á aðalfundi skal jafnframt kjósa einn varamann í stjórn til eins árs í senn. Í forföllum aðalmanna skal varamaður kallaður til. Varamaður má sitja alla stjórnarfundi í félaginu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt hefur hann aðeins í forföllum aðalmanns.
Stjórnarmenn og varamann má endurkjósa.
Á aðalfundi skal kjósa þriggja manna kjörnefnd, sem starfar í eitt ár.  Tilkynningar um framboð til embætta skulu berast skrifstofu Golfklúbbsins Odds, eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.  Hafi ekki nægjanlegur fjöldi gefið kost á sér á þeim tíma er kjörnefnd heimilt að framlengja framboðsfrestinn enda sé það tryggilega tilkynnt félagsmönnum.  Hafi þrátt fyrir það eigi borist næg framboð skal kjörnefnd hlutast til um að afla nauðsynlegs fjölda framboða.  Að framboðsfresti liðnum skal kjörnefnd kynna frambjóðendur á heimasíðu klúbbsins og/eða með öðrum tryggum hætti*

Tillaga:

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn, aðra stjórnarmenn til tveggja ára í senn, þannig að tveir þeirra eru kosnir annað hvert ár. Komi til þess að stjórnarmaður hætti í stjórn á fyrra starfsári er heimilt að kjósa stjórnarmann til eins ár svo að tryggt verði að tveir stjórnarmenn verði kosnir á hverjum aðalfundi.

Formaður félagsins er aðalforsvarsmaður þess og kemur hann fram fyrir hönd félagsins og stjórnar þegar við á auk þess sem hann stýrir stjórnarfundum og sinnir öðrum þeim verkefnum sem stjórnin kann að fela honum og lög heimila.
Á aðalfundi skal jafnframt kjósa tvo varamenn, fyrsta og annan varamann, í stjórn til eins árs í senn. Í forföllum aðalmanna skulu varamenn kallaðir til í þeirri röð sem þeir voru kosnir. Varamenn mega sitja alla stjórnarfundi í félaginu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Atkvæðisrétt hafa varamenn aðeins í forföllum aðalmanna.
Stjórnarmenn og varamenn má endurkjósa.
Á aðalfundi skal kjósa þriggja manna kjörnefnd, sem starfar í eitt ár.  Tilkynningar um framboð til embætta skulu berast skrifstofu Golfklúbbsins Odds, eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund.  Hafi ekki nægjanlegur fjöldi gefið kost á sér á þeim tíma er kjörnefnd heimilt að framlengja framboðsfrestinn enda sé það tryggilega tilkynnt félagsmönnum.  Hafi þrátt fyrir það eigi borist næg framboð skal kjörnefnd hlutast til um að afla nauðsynlegs fjölda framboða.  Að framboðsfresti liðnum skal kjörnefnd kynna frambjóðendur á heimasíðu klúbbsins og/eða með öðrum tryggum hætti.

16. grein

Er nú:

Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum klúbbsins. Aðalfund skal halda fyrir 10. desember ár hvert.
Aðalfund og aðra félagsfundi skal auglýsa með viku fyrirvara, á heimasíðu félagsins, með tölvubréfi og með auglýsingu í dagblaði. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá.

Tillaga:

Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum klúbbsins. Aðalfund skal halda fyrir 10. desember ár hvert.
Aðalfund og aðra félagsfundi skal auglýsa með viku fyrirvara, á heimasíðu félagsins, með tölvubréfi og á öðrum miðlum félagsins. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá.

Tillaga-stjornar-um-breytingar-a-logum-Golfklubbsins-Odds70641

< Fleiri fréttir