07/12/2022
Aðalfundur Golfklúbbsins Odds var haldinn á Urriðavelli þriðjudagskvöldið 6. desember og var þátttaka góð meðal félagsmanna, afhentir voru 63 kjörseðlar svo mætingin var skráð þannig. Fundarstjóri var kjörinn Hlöðver Kjartansson sem tók yfir stjórn fundarins og gaf formanni GO Kára Sölmundarsyni orðið og fór hann yfir þau verkefni sem unnin voru á árinu og yfir helstu viðburði ársins eins og lesa má frekar um í ársskýrslu stjórnar á heimasíðunni 2022.oddur.is. Að lokinni yfirferð Kára fékk Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri orðið og kynnti ársreikning félagsins. Engar umræður voru um ofangreint og voru skýrsla stjórnar og ársreikningur samþykkt samhljóða. Lagabreytingar voru næst lesnar upp og samþykktar samhljóða en þær voru almennt minniháttar breytingar á orðalagi eða í takt við nýja tíma en stærsta breytingin sneri að því að bæta við einum varamanni í stjórn.
Fjárhagsáætlun GO 2023 var samþykkt á aðalfundi og verða félagsgjöld hækkuð um 11% á næsta tímabili á fullu gjaldi, forsendur hækkunar snúa aðallega að launaþróun, nauðsynlegum endurnýjunum og á ýmsum tækjum og hækkun aðfanga eins og áburðar sem hefur hækkað um ríflega 50% í innkaupum. Gjaldskrá fyrir komandi tímabil verður því eftirfarandi:
Urriðavöllur / full aðild
Einstaklingar 26-66 ára | 155.000 |
Einstaklingar 67-84 ára | 132.000 |
Félagsmenn 18-25 ára | 77.500 |
Félagsmenn 85 ára og eldri | 46.500 |
Börn og unglingar 17 ára og yngri | 46.500 |
Systkinaafsláttur: | |
Tvö systkini | 59.500 |
Þrjú systkini | 72.500 |
Fjögur systkini | 85.500 |
Ljúflingur félagsaðild fullorðinn 26-66 ára | 61.000 |
Ljúflingur félagsaðild 67 ára og eldri | 49.000 |
Ljúflingur félagsaðild 25 ára og yngri | 31.000 |
Sjálfkjörið var í formannsembættið þetta árið og fékk Kári formaður lófaklapp frá viðstöddum fundargestum. Ljóst var fyrir fundinn að kosið yrði um þrjá í aðalstjórn í stað tveggja eins og almennt er á hverju ári þar sem Ægir Vopni Ármannsson vék úr stjórn sökum anna á öðrum vettvangi og vildi gefa einhverjum öðrum tækifæri á að leggja stjórninni lið. Gengið var til kosninga og eftirfarandi aðilar voru í framboði, Ágúst Valgeirsson, Árni Traustason, Berglind Rut Hilmarsdóttir, Joost van Erven, Giovanna Steinvör Cuda og Jón S. Garðarsson. Eftir talningu atkvæða var ljóst að Berglind Rut Hilmarsdóttir og Giovanna Steinvör Cuda höfðu hlotið kosningu til tveggja ára en Jón S. Garðarsson hlaut kosningu til eins árs. Sjálfkjörið var í embætti varamanna en í framboði voru Guðrún Símonardóttir og Páll Þórir Pálsson sem voru þá fyrsti og annar varamaður í þeirri röð eins og nýsamþykkt lög sögðu til um.
Fundinum hafði borist eitt erindi frá Heimi Sigurðssyni sem laut að því að nauðsynlegt væri að dregið yrði úr golfmótum um allt að 40% til að auka aðgengi félagsmanna og vildi hann að fundurinn tæki afstöðu til þessarar tillögu. Kári formaður tók til máls og fór yfir það sem áður hafði verið kynnt í skýrslu stjórnar að lagðar hefðu verið til nýjar reglur varandi hópa og fyrirtæki sem væru verulega í anda þess að draga úr mótahaldi og auka aðgengi þá félagsmanna á völlinn. Fundarstjóri bar því upp tilllögu til dagskrár sem gekk framar en tillaga Heimis, málinu var því vísað til stjórnar til efnislegrar meðferðar og umræðna, öll atkvæði gegn einu samþykktu það.
Næstu skref okkar eru að undirbúa innheimtu félagsgjalda sem gert í gegnum nýtt kerfi en við erum að innleiða Sideline (XPS) kerfi sem mun halda utan um alla innheimtu, félagatal og æfingar okkar æfingahópa. Við munum senda fljótlega út leiðbeiningar og upplýsingar um leið og innleiðing er klár. Við búumst við því að greiðsludreifing í nýju kerfi verði mun sveigjanlegri en í eldri kerfum og því verður hægt að skipta greiðslum upp í fleiri gjalddaga en áður.
Í lok fundar þakkaði Kári fyrrverandi stjórnarmönnum Höllu Hallgrímsdóttur og Ægi Vopna Ármannssyni fyrir þeirra tíma í stjórn GO og bauð nýja stjórnarmenn velkomna til starfa, Kári þakkaði einnig þeim frambjóðendum sem ekki náðu kjöri fyrir þeirra framboð og vonaðist til þess að hægt væri að fá þá aðila til starfa fyrir klúbbinn í nefndum eða öðrum verkefnum ef áhugi væri á því. Kári minntist á að nú væri líklegt að nýtt deiliskipulag yfir svæðið okkar og nágrenni væri á leið í auglýsingu og átti hann von á því að það væri komið í ferli fyrir jólin. Fleira var ekki rætt og fundi slitið tæplega 21:50
Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir gott starfsár