• 1. Object
  • 2. Object

4.1° - SSV 6.8 m/s

585 0050

Book Tee Times

Golfklúbburinn Oddur 30 ára

Kveðja frá formanni GO

Það er ólíklegt að frumherjar innan Oddfellowhreyfingarinnar og annað áhugafólk um golf, hafi gert sér grein fyrir þeirri umbyltingu á svæðinu í Urriðakotsdölum sem framtíðin myndi bera með sér þegar hafist var handa við að velta við steinum, tína grjót og sá í örfoka jökulsorfið holtið árið 1990.  Árið 1993 er Golfklúbburinn Oddur stofnaður og sækir um aðild að GSÍ og verður þátttakandi í íþróttahreyfingunni og Urriðavöllurinn verður hans heimavöllur.  Stofnfélagar voru sjötíu og fimm, flestir félagar í Golfklúbbi Oddfellowa en saga þessara tveggja félaga hefur verið samofin síðastliðin 30 ár.
 
„Eitt stykki golfvöllur, kemur ekki af himni ofan“ sagði Óskar G. Sigurðsson fyrsti formaður klúbbsins.  Á upphafsárum hans fóru óteljandi tímar sjálfboðaliða í það eitt að gera svæðið hæft til að þess að iðka þar golf. Golfvellir landsins eru flestir byggðir upp á svæðum sem teldust varla nýtanleg til nokkurra hluta.  Það átti einnig við um það svæði sem Urriðavöllur liggur á. Frá þeim tíma hafa mörg handtök verið unnin á svæðinu og hið örfoka holt orðið að blómlegu útivistarsvæði sem nú hýsir rúmlega átjánhundruð félagsmenn og iðar af lífi frá byrjun maí og fram í október.  Það er of langur listi að telja upp alla þá sem lagt hafa hönd á plóginn en undanfarin tíu ár hefur orðið eðlisbreyting á félagsstarfinu þar sem starfsmenn klúbbsins sjá orðið að mestu um allar framkvæmdir á meðan félagsmenn skipuleggja leik.
 
En það er ekki bara vallarsvæðið sem þróast, byggðin hefur þanist út og Urriðavatnsdalir eru ekki lengur langt frá byggð heldur við hlið blómlegs íbúðahverfis Urriðaholts. Þessi gæði sem kylfingar hafa skapað eru að verða eftirsótt af öðrum sem stunda annarsskonar útivist. Það verður verkefni næstu ára að samtvinna golfið og aðra útivist svo að vallarsvæðið fái að þroskast og þróast.  Mikilvægi lýðheilsu er okkur í Oddi hugleikið og að geta stuðlað að því að það svæði sem við hugsum um sé opið öllum, íbúum landsins til heilsueflingar.
 
Það er venja á afmælisári að líta til baka. En þrítugur einstaklingur horfir fram á við og það gerum við einnig. Það er því gleðilegt að á þrjátíu ára afmælisdegi Golfklúbbsins Odds, hillir undir lokasamþykkt skipulags að stækkun svæðisins ásamt enn frekari samþættingu golfs við aðra útvist. Verulegur kraftur hefur verið settur í skipulagt íþróttastarf barna og unglinga enda er mikilvægt að kynslóðirnar skemmti sér saman. Það verður því áframhaldandi mikil uppbygging á svæðinu í Urriðavatnsdölum, þar sem á næstu árum munu nýjar golfbrautir verða opnaðar á sama tíma og ný útivistarsvæði fyrir gesti allan ársins hring.
 
Árið 2006 hélt Golfklúbburinn Oddur í fyrsta sinn Íslandsmót í golfi. Við undirbúning mótsins þurfti að leggja í verulegar framkvæmdir sem er grunnur að aðstöðu okkar eins og hún er í dag. Nú á þrjátíu ára afmælinu hýsum við á ný Íslandsmótið og sama aðstaða og var sköpuð fyrir sautján árum getur enn tekið á móti þessum viðburði, þrátt fyrir að umfangið hafi vaxið.  Félagsmenn okkar munu styðja við framkvæmdina enda þaulvanir eftir að hafa haldið tvö Evrópumót árin 2016 og 2022.  Afmælismót klúbbsins verður haldið á þjóðhátíðardaginn þann 17. júní auk ýmissa viðburða sem munu raðast niður á starfsárið.  Klúbburinn hefur svo skipulagt hópferð á suðlægar slóðir þegar hausti hallar, en fyrst munum við skemmta okkur vel í sumar.
 
Til hamingju með afmælið
Kári Sölmundarson
Formaður GO

< Fleiri fréttir