• 1. Object
  • 2. Object

4.1° - SSV 6.8 m/s

585 0050

Book Tee Times

AÐALFUNDUR GO 2021 – Kári Sölmundarson endurkjörinn formaður

Aðalfundur Golfklúbbsins Odds var haldinn á Urriðavelli á þriðjudagskvöld og ágæt mæting var á fundinn um 20 manns en allir sem mættu þurftu að framvísa neikvæðu hraðprófi. Fundurinn var einnig sendur úr á facebook þar sem um 40 manns fylgdust með fundinum. Kári formaður fór yfir skýrslu stjórnar og yfir þau verkefni sem unnið var að á árinu ásamt því að þakka okkar starfsfólki, stjórnarmönnum og félagsmönnum fyrir ánægjulegt ár. Þorvaldur Þorsteinsson framkvæmdasstjóri fór yfir fjármál klúbbsins og fjárhagsáætlun komandi starfsárs. Fundarstjóri var Gunnar Viðar og fundarritari Svavar Geir Svavarsson.

Rekstur GO gekk vel á starfsárinu og hagnaður var af rekstri um 10,0 milljónir króna sem er sambærilegt og var á árinu á undan. Tekjur námu alls 245,5 milljónum samanborið við 212 milljónir á árinu 2020. Okkar megin tekjur koma úr félagsgjöldum bæði á Urriðavöll og Ljúfling. Rekstargjöld hækkuðu einnig úr 200 milljónum árið 2020 í 233 milljónir í ár. Laun og launatengd gjöld vega þar hæst en einnig jókst kostnaður við rekstur golfskála þar sem við hófum endurbætur á innanstokksmunum. Hægt er að skoða reikninga félagsins á http://2021.oddur.is

Eftir yfirferð reikninga sem voru samþykktir lagði Þorvaldur framkvæmdastjóri fyrir fjárhagsáætlun 2022 sem einnig var samþykkt á aðalfundi og leiðir hún af sér að félagsgjöld eru hækkuð um c.a. 6% á næsta tímabili, hækkanir snúa aðallega að væntanlegum launahækkunum skv. kjarasamningum og við höfum einnig fundið verulega fyrir hækkun aðfanga eins og áburðar sem hefur hækkað um 30-80% í innkaupum.

Félagsgjöld 2022 verða því eftirfarandi: 

FULL AÐILD
Félagsmenn 17 og yngri, kr. 42.000
Félagsmenn 18-25 ára, kr. 70.000
Félagsmenn 26-66 ára, kr. 140.000
Félagsmenn 67-84 ára, kr. 112.000
Félagsmenn 85 ára og eldri, kr. 42.000

Systkinaafsláttur: Hvert barn umfram eitt í fjölskyldu greiðir 12.000 kr.
tvö systkini 54.000
þrjú systkini 66.000
fjögur systkini 78.000 

LJÚFLINGSAÐILD
Félagsaðild 25 ára og yngri, kr. 27.500
Félagsaðild 26 – 66 ára, kr. 55.000
Félagsaðild 67 ára og eldri, kr. 44.000

Stjórn GO var sjálfkjörin þar sem kjörnefnd bárust ekki önnur framboð en frá sitjandi stjórnarmönnum. Formaður GO Kári Sölmundarson tók því aftur við embætti, Berglind Rut Hilmarsdóttir og Halla Hallgrímsdóttir voru kosnar til tveggja ára á aðalfundi 2020 og sitja því áfram í stjórn. Ægir Vopni Ármannsson og Auðunn Örn Gylfason voru sjálfkjörnir ásamt Jón S. Garðarssyni sem gaf kost á sér í varamann.

Við munum áfram notast við Nóra félagakerfið við innheimtu félagsgjalda og þar geta félagsmenn sjálfir ákveðið greiðslufyrirkomulag með því að skrá sig rafrænnt inn á slóðina https://oddur.felog.is/ Við bjóðum þar upp á sama greiðslufyrirkomulag og undanfarin ár þar sem í boði er að dreifa greiðslum í 5 skipti með kröfum í banka eða 5 skipti með dreifingu á greiðslukort. Þeir félagsmenn sem ekkert viðhafast í því að dreifa greiðslum munu fá senda tvo greiðsluseðla á nýju ári.

Mikilvægt er að þeir félagsmenn sem sjá sér ekki fært að vera með okkur á nýju ári gangi frá því með því að senda póst á skrifstofa@oddur.is og við lokum fyrir innheimtu og tökum þá inn nýja félaga af biðlista.

Frekari fréttir af fundinum má finna í ársskýrslu GO sem birt er sem heimasíða http://2021.oddur.is og beint streymi af fundinum má finna á facebook síðu Odds.

Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir gott starfsár.

< Fleiri fréttir