• 1. Object
  • 2. Object

4.1° - SSV 6.8 m/s

585 0050

Book Tee Times

Bændaglíma GO – úrslit

Eftir yfirlegu og góðan svefn hefur bændaglímuráð farið yfir úrslit mótsins. Töluvert var um blaut skorkort sem gerði bændaglímuráði auðveldara með að lesa úr úrslitum eins og hún taldi best eða ráðlegast í ljósi aðstæðna.

Það verður að segjast eins og er að kylfingar GO brugðust ekki illa við kalli bænda í ár og færri komust að en vildu í glímu ársins. Þegar hefja átti leik voru 32 lið skráð til leiks eða 128 keppendur, einhverjir létu ekki sjá sig sem var miður og vissulega var brugðist við tilkynntum forföllum og áður en til leiks var farið var búið að skipta nokkuð jafnt í lið. Kalla þurfti til bændaglímuráðs til að bregðast við fámennum sauðahópum á velli þegar í ljós kom að þrír leikhópar voru fámennari en ráðlegt var. Eftir tilfærslur á leikrollum náðist að jafna aðeins í hópum en þó endaði það svo að einn leikhópur í skipulagi dagsins lék með einungis einn hrút og eina ær. Sá hópur byrjaði einnig leikinn sem blátt lið en kom heim þrútinn og rauður og hafði því skipt um lið þegar talið var til úrslita. Allar þessar óvenjulegu aðstæður komu sér mjög vel fyrir bændaglímuráð því leikar enduðu fyrir vikið alveg jafnir 1385 högg á hvorn bónda. Ekki hefur verið ákveðið hvort bændur verði kallaðir til bráðabana og eða allir sauðir með, en eins og er látum við jafntefli standa.

Við færum innilegar þakkir til allra sem mættu enda voru í boði nokkuð erfiðar aðstæður þar sem rigndi duglega og í raun eftirminnilega mikið allan tímann meðan á glímu stóð.

Við færum einnig þakkir til bænda en fyrir rauða liðið var bóndi Sigríður Björnsdóttir Birnir og í bláa liðinu var Guðmundur Þórir Guðmundsson bóndi. Á velli og í tjaldi voru svo Baldur, Ottó, Axel og Svavar og þeir stóðu sig með prýði að eigin sögn. Valdi sem er einráður í bændaglímuráði fær svo hrós fyrir flott skipulag.

Veitingasalan hér á Urriðavelli fær einnig hrós frá okkur og keppendur voru verulega ánægðir með veitingar dagsins en í þessu óvenjulega ástandi var engin veisla í húsinu en við fylltum bændavagna og tjald við skálann af veitingum og grilluðum svo gómsæta hamborgara af “einstakri snilld” sögðu sauðir….

Það er einnig ástæða til þess að þakka styrktaraðilum en þetta væri ekki svona vinsælt og skemmtilegt ef við hefðum ekki svona flotta aðila í kringum okkur og því fá GLOBUS, KALLIK og Coca-Cola European Partners
Ísland ehf okkar innilegustu þakkir.

Hér er hlekkur á myndir úr glímunni myndasafn

Og hér er skor keppenda, engar kærur eru leyfðar á þessu stiginu en við getum að sjálfsögðu lagað til villur í skjalinu en úrslit standa. Bændaglímuráð fundar í dag 28.9 um verðlaun og þau verða tilkynnt sérstaklega í uppfærslu á þessari frétt.

Baendaglima-urslit-pdf

Guðmundur Þórir Guðmundsson, bóndi bláa liðsins
Sigríður Björnsdóttir Birnir, bóndi rauða liðsins

Að venju leggur Valdi einvaldur fram nokkra fyrri parta sem sumir sauðir fá í meðgjöf og þurfa að botna og skila inn ef þeir eru vel stemmdir, hér eru afrek dagsins sem skiluðu sér í hús.

Teigur, brautin, flötin fín
fæstu höggin gefa.
Ferlaga blautu fötin mín
fjandi illa þefa.
(höf. Guðjón, Jóhann, Bergþóra og Hulda)

Teigur, brautin, flötin fín
fæstu höggin gefa.
Sjáðu bara höggin mín
hættu svo að slefa.
(höf. Guðmundur, Ingibjörg, Sólveig og Ólafur)

Bændur eru að bera sig,
bak við fimmta grínið.
Ef þeir ætla að hrella mig
einn þeir fá á trínið.
(höf. Eggert, Sigurbjörg, Gulli og Magga)

< Fleiri fréttir