• 1. Object
  • 2. Object

4.1° - SSV 6.8 m/s

585 0050

Book Tee Times

Bréf frá formanni

Nú er afmælisárið hafið, Golfklúbburinn Oddur fagnar 25 ára afmæli sínu í sumar eða þann 14. júní.  Þó svo afmælið beri upp á ákveðnum degi ætlum við að reyna fagna allt árið og vonum við að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir af því tilefni.   Hápunktur ársins verður svo afmælisferð Golfklúbbsins í október til Lumine á Spáni, hópurinn aldrei verið stærri eða 96 manns.

Veturinn hefur hingað til verið frekar erfiður fyrir völlinn.  Mikið frost hefur einkennt þennan vetur og liggur það djúpt í jörðu.  Flatir og brautir eru þrátt fyrir það í þokkalegum málum.  Einhverjar skemmdir hér og þar en ekkert umfram það sem verið hefur undanfarin ár. Langt er þó í að hægt sé að spá fyrir um opnun en eins og staðan er í dag, þurfum við að fá áframhaldandi góða og langa hlýindakafla.

Lífið uppá Urriðavelli hefur sjaldan verið eins líflegt og í vetur.  Sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig bæði starfsfólk og félagar okkar hafa fært líf í klúbbhúsið með því að setja upp púttvöll, bjóða uppá kaffi, fara í göngur og hreinlega bara hittast.  Facebook síða klúbbsins hefur haldið okkur öllum vel upplýstum og styttir biðina að komast í golf.  Margir nýir félagar hafa bæst í hópinn líkt og undanfarin ár eða ríflega 80 manns og fögnum við því þó svo við sjáum auðvitað á eftir þeim sem hafa ákveðið  að breyta til eða hreinlega hætta. 

Mörg verk eru unnin af starfsfólki og félagsmönnum yfir veturinn, nefndir að skipuleggja félagslíf okkar og margt á dagskrá næstu vikurnar. Vinna heldur áfram við vélageymsluna, frágangur á nýju borholunni mun klárast fyrir vorið ásamt því að nú verið að setja upp girðingu utan um æfingarsvæðið við 9. braut, bæði til að vernda trjágróðurinn þar og koma í veg fyrir mikið tap af golfboltum ár hvert.  Má áætla að um tugir þúsunda golfbolta megi finnast í gróðrinum við brautina, sem koma reyndar frá tveimur áttum, þó mest af æfingarsvæðinu okkar Lærlingi.  Leyfi ég ykkur að velta fyrir ykkur hvers vegna það er enn ágætt í þessu samhengi að benda á okkar frábæru kennara, Phill og Rögnvald 😊

 Sjáumst fljótt og gleðilega páska.

 Með kveðju,

Elín Hrönn Ólafsdóttir
Formaður

< Fleiri fréttir