11/10/2016
Fjórtán félagar úr Golfklúbbnum Oddi er nýkomnir heim úr frábærri golfferð til Belfry á Englandi. Ferðin var skipulögð í samstarfi við GB Ferðir og heppnaðist ferðin afskaplega vel. Belfry er heimsþekkt golfsvæði við Birmingham þar sem Ryder-bikarinn hefur fjórum sinnum farið fram – síðast árið 2002.
„Þetta var mikil upplifun. Það er magnað að koma til Belfry og leika á þessu fræga golfsvæði,“ segir Örn Smári Gíslason sem var fararstjóri í ferðinni.
Hópurinn úr Oddi fékk frábært veður í ferðinni því ekki féll dropi úr lofti alla helgina. „Vellirnir voru frábærir og í topp ásigkomulagi. Öll aðstaða á Belfry er frábær – allt á sama punktinum. Það er stutt að labba á teig á alla þrjá vellina. Veitingastaðir eru frábrugðnir hvor öðrum og hótelið mjög gott. Okkar upplifun var í alla staði frábær.“
Flogið var beint með Icelandair til Birmingham en aðeins er um 15 mínútna akstur frá flugvellinum til Belfry. „Ferðalagið er svo sutt og þægilegt í alla staði. Það var líka hluti af hópnum sem nýtti tækifærið og kíkti yfir til Birmingham,“ bætir Örn Smári við.
Blásið var til golfmóts í ferðinni og leikið á Brabazon vellinum heimsþekkta sem er aðal keppnisvöllurinn á Belfry golfsvæðinu. Anna María Sigurðardóttir og Halldór Örn Óskarsson fögnuðu sigri og fengu að launum gjafabréf frá GB Ferðum.
„Þetta er auðvitað alvöru vellir – langir og krefjandi. Þó að Brabazon hafi náð að brjóta mig þá lét ég það ekki á mig fá. Skorið var aukaatriði því upplifunin var svo mikil,“ segir fararstjórinn.
„Hópurinn var breiður í aldri og við þekktum hvort annað ekki mikið. Við fengum því tækifæri til að kynnast og andinn í ferðinni var frábær. Við vorum orðin eins og góður vinahópur í lok ferðar,“ sagði Örn Smári Gíslason, fararstjóri GO á Belfry.
Nokkrar myndir úr ferðinni má sjá hér að neðan. Myndirnar tók Örn Smári Gíslason.