28/10/2015
Fyrr í sumar var undirritaður þriggja ára samstarfssamningur við Vífilfell sem hefur stutt myndarlega við Golfklúbbinn Odd á undanförnum árum. Ákveðið var að skrifa undir nýjan samning þegar það lá fyrir að Evrópumót kvennalandsliða færi fram á Urriðavelli árið 2016 en Vífilfell mun aðstoða klúbbinn við framkvæmd mótsins.
Við þetta tilefni undirrituðu Jón Haukur Baldvinsson, sölustjóri hjá Vífilfelli, og Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds, undir samstarfssamning til næstu þriggja ára.
„Það var viðeigandi að endurnýja áratugalangt samstarf við Golfklúbbinn Odd á slíkum tímamótum og erum við hjá Vífilfelli afar stolt af því að vera bakhjarl svona öflugs klúbbs,“ segir Jón Haukur.
Vífilfell styður við innanfélagsmótaröð GO
Þorvaldur segir það vera mikinn styrk fyrir klúbbinn að hafa öflugan bakhjarl á borð við Vífilfell og geta boðið gestum upp á vinsælustu vörumerkin í gosdrykkjum og bjór. „Vífilfell hefur stutt myndarlega við innanfélagsmótaröð klúbbsins, Powerade-mótaröðina, á síðustu árum og með þessum samningi er samstarfið eflt enn frekar. Við hjá Golfklúbbnum Oddi viljum lýsa yfir ánægju með samstarfið við Vífilfell og erum þess fullviss að það verði farsælt hér eftir sem hingað til.“