30/07/2015
Guðbjörg Pálsdóttir, félagi í Golfklúbbnum Oddi, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 8. braut Urriðavallar um síðustu helgi. Hún var við leik í kvöldsólinni um kl. 21:30 ásamt eiginmanni sínum Guðmundi R. Magnússyni.
Guðbjörg sló draumahöggið með 7-járni. Boltinn lenti rétt fyrir framan flötina og rúllaði glæsilega beint í holu fyrir ás.
„Tilfinningin var ansi ljúf, ég get ekki neitað því. Ásinn hífði nú heldur betur upp skorið sem var ansi lélegt á bæði 7. og 9. braut,“ segir Guðbjörg.
Kylfingar hafa verið duglegir við að slá draumahögg á Urriðavelli sem er fagnaðarefni. Við hvetjum þá sem slá draumahöggið að láta okkur hjá GO vita og senda á okkur alla sólarsöguna á oddur@oddur.is.
Til hamingju Guðbjörg!