25/07/2020
Íslandsmeistarar golfklúbba í karlaflokki er lið GKG og í kvennaflokki lið GR. Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju með verðskuldaða Íslandsmeistara titla og þökkum öllum sem okkur aðstoðuðu og heimsóttu þessa keppnisdaga. Það var gífurleg ánægja með golfvellina og það ber að sjálfsögðu að þakka vallarstarfsmönnum fyrir þeirra vinnu. Við þökkum einnig GKG fyrir frábæra samvinnu en mótið var haldið sameiginlega með okkar nágrönnum og tókst það í alla staði vel.
GKG og Keilir léku til úrslita í 1. deild karla. GKG sigraði nokkuð örugglega og er þetta í sjöunda sinn sem GKG fagnar þessum titli. Þetta er annað árið í röð sem GKG sigrar á Íslandsmóti golfklúbba 1. deild karla og í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.
GR sigraði GM í leiknum um þriðja sætið í 1. deild karla.
GKG sigraði GR 3,5-1,5 og GK lagði GM 3-2 í undanúrslitum.
Golfklúbbur Reykjavíkur fagnaði sigri á Íslandsmóti golfklúbba 2020 í 1. deild kvenna. Þetta er í 21. sinn sem GR vinnur þessa keppni. GR lagði Keili í úrslitaleiknum 4-1 á Urriðavelli í dag. Golfklúbbur Mosfellbæjar sigraði Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar í leiknum um þriðja sætið. Nánar á golf.is. Þetta er í 21. sinn sem GR fagnar sigri á Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild kvenna.
Keilir sigraði GKG 3,5 / 1,5 í undanúrslitum og GR lagði GR 4-1 í undanúrslitum.
Í leikjum um 5 – 8. sæti hjá körlum var hörkukeppni og að lokum fór það þannig að lið Leynis laut í lægra haldi fyrir liði GS og því er það hlutskipti Leynismanna að leika í 2. deild á næsta ári.
Í leikjum um 5. – 8. sæti hjá konum var einnig hörð barátta og það voru Oddskonur sem háðu baráttu við Golfklúbb Vestmannaeyja um hvort liðið myndi halda sér í deildinni og það varð á endanum hlutskipti Oddskvenna að falla niður í 2. deild.
Lokastaðan í 1. deild kvenna:
1. Golfklúbbur Reykjavíkur (GR)
2. Golfklúbburinn Keilir (GK)
3. Golfklúbbur Mosfellsbæjar (GM)
4. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar (GKG)
5. Golfklúbbur Suðurnesja (GS)
6. Golfklúbbur Skagafjarðar (GSS)
7. Golfklúbbur Vestmanneyja (GV)
8. Golfklúbburinn Oddur (GO)
*GO fellur í 2. deild.