29/04/2020
Pistill frá kvennanefnd
Gleðilegt sumar kæru Oddskonur
Sumardagurinn fyrsti fyllir hjörtu okkar Íslendinga ávallt lífsgleði, tilhlökkun og bjartsýni á að framundan séu fagurt vor og dásamlegt sumar. Framundan er þessi yndislegi tími þar sem náttúran lifnar við með fuglasöng og björtum nóttum. Þrátt fyrir að nú séu sérstakir tímar þar sem lífið er með öðrum hætti en við höfum nokkru sinni upplifað, þá vitum við að dagarnir verða bjartari og grasið verður fljótlega iðagrænt og golfvöllurinn okkar líka.
Eins og gefur að skilja er erfitt að skipuleggja og taka ákvarðanir um sumarstarfið okkar en við Oddskonur erum lausnamiðaðar og kippum okkur ekki upp við það þó við þurfum að gera breytingar. Hins vegar langar okkur afskaplega mikið til að spila golf þó veisluhöld þurfi líkast til eitthvað að bíða.
Dagskráin okkar hefur tekið nokkrum breytingum en við náðum að ljúka Púttmótaröðinni og meira að segja að afhenda verðlaunin.
Kvennakvöldið okkar, sem verið hefur okkar aðal fjáröflun fyrir sumarstarfið, átti að vera í mars og vonuðumst við til að geta haldið það núna í kringum mánaðarmótin. Við þurfum hins vegar að aflýsa því í ljósi samkomutakmarkana.
Vorferðin okkar var áætluð í Öndverðarnes en það er ljóst að vegna samkomutakmarkana verður ekki unnt að fara í þá ferð nema með mikið breyttu sniði og því ákvað kvennanefndin að aflýsa þeim viðburði einnig. Við höfum hist undanfarin ár í byrjun maí og gert okkur glaðan dag, svona hrist okkur saman rétt fyrir opnun vallarins, þeim viðburði hefur einnig verið aflýst.
FUGLAR og ERNIR söfnunin okkar verður með hefðbundnu sniði, kassinn okkar góði verður á sínum stað og hvetjum við ykkur til að muna eftir að skila miðum í hann.
Til sögunnar kynnum við nýjung í félagsstarfi Oddskvenna en það er MÓTARÖÐ sem við munum spila á Urriðavelli fjórum til fimm sinnum, tvö bestu mót munu telja í mótinu og því nægir að taka þátt tvisvar. Fyrirkomulagið verður að minnsta kosti á fyrsta mótinu þannig að konur geta spilað hvenær sem er að deginum, en það verður nánar auglýst síðar. Áætlaðar dagsetningar fyrir mótaröðina eru 11. júní, 25. júní, 14. júlí, 13. ágúst og ef veður leyfir 19. september. Sá guli á myndinni verður að sjálfsögðu í verðlaun fyrir holu í höggi 🙂
*LOKAHÓF og UPPSKERUHÁTÍÐ verður þann 19. september, hvort sem veður leyfir golfmót eða ekki og því hvetjum við ykkur til að taka þann dag frá og fara að líta í kringum ykkur eftir samkvæmisdressinu.
LJÚFLINGSMÓTIÐ er áætlað 6. ágúst en það má allt eins reikna með að fyrirkomulag þess verði með eitthvað breyttu sniði þar sem þátttaka í fyrra var mjög mikil.
VINKVENNAMÓT GO og GK er áætlað 16. og 17. júlí en hefur ekki verið staðfest. Þetta skipulag okkar getur að sjálfsögðu tekið breytingum en við vonum að þær verði ekki umtalsverðar. Vonandi verður vorið gott svo unnt verði að opna Urriðavöllinn okkar fagra á blíðviðrisdegi um miðjan maí, þegar formaður kvennanefndar verður að vanda stödd í sauðburði.
Sumarkveðja, kvennanefndin