• 1. Object
  • 2. Object

4.1° - SSV 6.8 m/s

585 0050

Book Tee Times

Liðið “Sex Urriðar” sigraði liðakeppni GO 2019

Það var hörkukeppni í gangi allt fram á fimmta og síðasta mót sumarsins í liðakeppni GO þar sem 20 lið börðust um þau sæti sem í boði voru. Sum lið voru ekki í baráttu um heildarverðlaunin en að sjálfsögðu létu keppendur það ekki aftra sér frá þátttöku og það var alltaf sá möguleiki í boði að sigra síðasta mótið og koma liði sínu upp töfluna og hljóta glæsilegan vinning fyrir afrek dagsins.

Í lokamótinu var það lið High Five sem sigraði, lið DD lakkalakk hafnaði í öðru sæti og liðið Kom á Óvart hafnaði í þriðja sæti. Röð efstu liða breyttist eitthvað en enginn náði að hreyfa við liðinu sem var í efsta sæti fyrir lokaumferðina og því sigraði lið Sex Urriða mótið með glæsibrag.

Hér vinstra megin eru Dína og Ragnheiður sem eru í sigurliði “Sex Urriða” og með þeim á myndinni er “Keflvíkingurinn” Gísli og “Prinsinn” Árni sem greinilega skemmtu sér vel.

Margir stóðu sig með prýði þennan lokadag. Keppt var í einstaklingsflokkum yfir sumarið þar sem besta punktaskor og höggleiksskor karla og kvenna var sérstaklega verðlaunað. Hæsta punktaskor dagsins kom hjá Jóni Ævarri Erlingssyni sem nældi sér í 42 punkta og kom sér þannig upp í besta heildarpunktaskor sumarsins hjá körlum. Skúli Ágúst Arnarsson lék við hvern sinn fingur og fækkaði þannig höggum dagsins og kom inn á pari vallarins og fyrir vikið var hann með fæst högg karl keppenda í mótaröðinni. Hjá konunum sigraði í heildarpunktakeppni kvenna okkar excel sérfræðingur Laufey Sigurðardóttir eftir skrifstofubráðabana en hún og Sólveig Guðmundsdóttir urðu jafnar eftir sumarið en Laufey átti betri seinni 9 á lokahringnum. Í höggleik kvenna sigraði Hrafnhildur Guðjónsdóttir nokkuð örugglega.

Af einstaklingsafreki dagsins ber að nefna að Arnar Grant fór mikinn á lokadegi og sparaði við sig eins mörg högg og hann gat á 15. holu vallarins og lét bara fyrsta höggið duga með glæsilegu höggi sem rataði rétta leið og hola í höggi staðreyndin.

Við viljum að loknu frábæru liðakeppnissumri þakka þeim fyrirtækjum sem veittu okkur stuðning í formi vinninga í sumar, en þar ber að nefna Blue Lagoon, veitingastaðinn NÍU á Hótel Íslandi, Örninn golfverslun, Everest, Nói Siríus, Ecco, FJ á Íslandi, Icelandair, Iðnmark og Garra. Við vonum að næsta golfsumar verði ekki síðra og við stefnum á að gera þessa mótaröð enn skemmtilegri og betri.
Með kærri þökk fyrir sumarið, Valdimar og mótanefndarvinir.

lokastaða-powerade-2019

Myndir frá mótinu er hægt að sjá með því að smella hér

< Fleiri fréttir