• 1. Object
  • 2. Object

0° - N 0 m/s

585 0050

Book Tee Times

Pistill vallarstjóra: Haustverkin að hefjast

Ágætu félagsmenn,

Nú fer að líða hausti og erum við vallarstarfsmenn að hefjast handa við haustverkin. Fyrsta formlega haustverkið felst í götun á flötum sem fram fer í byrjun næstu viku. Um er að ræða fíngötun og er tilgangurinn að lofta um í flötunum til að þær haldist þurrari yfir vetratímann. Ekki verður mikið rask á flötunum vegna þessa því ekki verður sandað yfir flatirnar. Eftir völtun og slátt þá munu kylfingar finna lítið fyrir þessu en götunin getur vissulega haft áhrif á pútt kylfinga fyrst um sinn.

Götunin er fyrsta skrefið í vetrarundibúningi og í næstu viku verða teigar svo tappagataðir. Innan tíðar munum við vallarstarfsmenn hækka sláttuhæð á brautum og flötum. Þannig leyfum við plöntunum að komast í betri hæð til að glíma við veturinn. Teigar 58 og 49 verða teknir úr umferð eftir um viku.

Við erum með betri völl í ár en oft áður. Ég er þokkalega sáttur með gæði flatanna í ár en er sjálfur líklega ekki besti dómarinn enda horfi ég sífellt í það sem er að vellinum en ekki það góða. Ég er ekki farinn að horfa til tímasetningar á lokun vallarins. Það ræðst algjörlega á veðri og vindum.

Á þessum tímapunkti er aldrei mikilvægara að ganga vel um völlinn og nota flatargafla. Þær skemmdir sem verða á flötunum um þessar mundir munu blasa við kylfingum næsta vor. Tökum til hendinni og lögum boltaför á flötum og kylfuför á brautum. Völlurinn er viðkvæmari fyrir raski um þessar mundir og vil ég biðja félagsmenn og kylfinga að taka tillit til þess.

Golfkveðja,
Tryggvi Ölver Gunnarsson
vallarstjóri Urriðavallar

< Fleiri fréttir