25/06/2022
Stjórn Golfklúbbsins Odds hefur samþykkt að herða á skráningarreglum og láta golfbox kerfið alfarið sjá um að halda utan um no-show á rástímum á Urriðavöll. Okkar markmið með skráningarreglum og tilmælum er að tryggja jafnræði félagsmanna við rástímabókanir og treystum við á tillitsemi félagsmanna í garð annarra til að allir sitji við sama borð. Brot gegn reglunum eru brot gegn réttindum annarra félagsmanna. Urriðavöllur er takmörkuð auðlind sem mikilvægt er að félagsmenn beri virðingu fyrir. Viðurlög eru ákveðin út frá því sjónarmiði.
Afskráningar eru óhemju tíðar. Er þeim tilmælum hér með komið á framfæri við félagsmenn að þeir skrái sig ekki í rástíma nema þeir hafi raunverulega ákveðið að spila, en ekki á forsendu um að þeir vilji eiga möguleika á að spila og sjá svo til er að kemur.
Komi til þess að félagsmaður mæti ekki í bókaðan rástíma, án þess að hafa afskráð sig með tilskildum fyrirvara, lokast sjálfkrafa fyrir skráningu viðkomandi félagsmanns í eina viku.
Athugið að reglur þessar taka gildi mánudaginn 27. júní en kylfingar með no-show um helgina fá áminningu en lokað verður fyrir skráningu þeirra sem ekki fara eftir reglum frá 27. júní.
Fyrirvari til afskráninga er ein klukkustund. Eins og gefur að skilja þarf að vera svigrúm til þess að félagsmaður geti bókað sig á lausan rástíma sem afbókaður er og því þurfa afskráningar að fara fram með góðum fyrirvara. Afskráningar skulu fara fram í gegnum Golfbox, en einnig er hægt að hringja inn afbókun. Ef afbókun berst innan einnar klukkustundar frá bókuðum rástíma verður skráð no-show á viðkomandi. Mikilvægt er að nafnabreytingar á rástímum berist tímalega.
GO mælist til þess við félagsmenn að þeir leyfi ekki öðrum að skrá þá í rástíma nema þeir hafi samþykkt að mæta í rástímann sjálfir. Annað felur í sér tillitsleysi gagnvart öðrum. Komi til þess að sá sem bókar rástímann sé að nota nöfn annara án þeirra vitneskju og þeir því í þeirri stöðu að vera settir á no show lista, er heimilt að láta þann sem bókar í rástímabann.
Hver félagsmaður getur skráð sjálfan sig og allt að þrjá aðra meðspilara að teknu tilliti til mismunandi tímafresta sem gilda hverju sinni um skráningar félagsmanna og utanfélagsmanna. Félagsmenn í GO hafa 6 daga bókunarrétt en gestir einungis 3. Hægt er að hafa samband við afgreiðslu ef bóka á gest utan við 3 daga bókun ef það er innan þess ramma að félagsmaður hafi fyrst fengið aðgang að þeim bókunardegi.
Bókanir rástíma fara fram í gegnum Golfbox samkvæmt þeim skilmálum sem þar gilda. Samkvæmt notendaskilmálum Golfbox er óheimilt að bóka rástíma með hvers kyns hugbúnaði, þ.m.t. svokölluðum skriftum, sem hannaður hefur verið til að skrá eða auðvelda skráningu rástíma í Golfbox og er til þess fallinn að veita viðkomandi forskot umfram aðra við rástímaskráningu.
Staðfesting á rástíma
Áður en leikur er hafinn skal leikmaður staðfesta mætingu í rástíma annað hvort í gegnum Golfbox app eða í golfverslun þar sem starfsfólk í golfverslun eru til aðstoðar ef þörf er á. Athugið að kylfingur ber sjálfur ábyrgð á því að sinn rástími sé staðfestur. Hver og einn kylfingur þarf að staðfesta sig.
ATHUGIÐ AÐ ÓSTAÐFESTUR RÁSTÍMI FELLUR UNDIR NO-SHOW
Nánar um bókanir rástíma og reglur GO varðandi bókanir
Stjórn GO, júní 2022