25/06/2019
Veðrið lék við keppendur í ár á miðnæturgolfmóti Úrval Útsýn á Urriðavelli síðastliðið laugardagskvöld þar sem um 100 keppendur léku golf inn í nóttina við frábærar aðstæður.
Það verður að hrósa keppendum sérstaklega fyrir frábæran leikhraða en við ræstum mótið út um 19:30 og fyrstu keppendur luku leik á miðnætti og síðustu hópar skiluðu sér í hús um hálftíma síðar enda misjafnt hvar á vellinum hóparnir kláruðu þannig að leiktími var um 4:40 sem verður að teljast frábært á fullum velli.
Úrval Útsýn stóð myndarlega að mótinu að venju og fengu keppendur góða súpu fyrir leik og gátu svo stoppað í tjaldi fyrir utan skálann og fengið hressingu og upplýsingar um frábærar golfferðir á vegum Úrval Útsýn. Þegar komið var inn í skála og keppendur biðu þess að skor væri fært inn þá var boðið upp á gómsætan pinnamat sem vakti lukku og svo var farið í verðlaunaafhendingu.
Að úrslitum mótsins er svo frá því að segja að konurnar sigruðu bæði völlinn og mótið en í efstu þrjú sætin röðuðu konur sér með glæsibrag á frábæru skori.
Í fyrsta sæti endaði Dagmar Jóna Eðvaldsdóttir á 41 punkti, í öðru sæti varð Etna Sigurðardóttir á 40 punktum og í þriðja sæti Helga Björg Steinþórsdóttir á 39 punktum. Dagmar hlaut í verðlaun glæsilega golfferð á Hacienda Del Alamo golfsvæðið sem Úrval Útsýn er með á sínum vegum og aðrir verðlaunahafar unnu sér inn gjafabréf í ferð á vegum ÚÚ.
Við þökkum keppendum fyrir komuna og Úrval Útsýn fyrir glæsilega umgjörð og flott verðlaun og hvetjum alla til að skoða þær golfferðir sem ÚÚ hefur upp á að bjóða.