13/04/2015
Þrátt fyrir talsverða snjókomu um helgina á höfuðborgarsvæðinu er Urriðavöllur á ný auður og að mestu laus við snjó. Gleður það eflaust félagsmenn GO og styttist óðum í golfsumarið 2015. Staðan á Urriðavelli er nokkuð góð að sögn Tryggva Ölvers Gunnarssonar vallarstjóra.
„Þetta lítur mun betur út í ár en í fyrra þegar það var mikill klaki á vellinum. Útlitið er nokkuð gott,“ segir Tryggvi. „Flestar flatir og teigar eru í góðu standi en auðvitað er alltaf smávegis af kalbettum á flötum sem gerist á hverju ári. Það er þó ekkert til að hafa áhyggjur af.“
Tryggvi er nokkuð bjartsýnn á framhaldið en veðurfarið ræður auðvitað mestu um framgang mála á Urriðavelli. „Eins og alltaf þá snýst þetta um hagstætt veður. Ef heppnin er með okkur næstu vikur þá lítur þetta mjög vel út. Það getur brugðið til beggja vona í þessu eins og öðru. Ef allt gengur upp þá munum við vonandi geta opnað inn á Urriðavöll um miðjan næsta mánuð.“
Ekki hafa verið gerðar neinar veigamiklar breytingar á Urriðavelli í vetur. Unnið hefur verið að stígagerð á 4. og 15. braut auk þess að gera breytingar á glompu við fjórðu braut.
Séð yfir 18. flötina á Urriðavelli. Völlurinn er farinn að taka við sér og vonandi að hitastig fari hækkandi næstu vikur.